Keilir

Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Námið í Keili skiptist í fjögur sérhæfð meginsvið, en innan hvers sviðs er fjölbreytt námsframboð. Sviðin fjögur eru Háskólabrú, sem miðar að því að undirbúa nemendur fyrir háskólanám, Flugakademía, sem býður upp á ýmiskonar flugtengt nám, Íþróttaakademía sem veitir ÍAK þjálfararéttindi og leiðsögunám í ævintýraferðamennsku, og tæknifræði, sem skiptist í iðntæknifræði og mekatróník hátæknifræði.  

Keilir var stofnaður vorið 2007 og hefur aðsetur á Ásbrú í Reykjanesbæ á fyrrum varnarsvæði bandaríska hersins. Frá upphafi hefur skólinn einsett sér að byggja upp námsmannasamfélag þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Keilir er hlutafélag og eru meðal eigenda Háskóli Íslands, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, rannsóknarstofnanir, orku- og fjármálafyrirtæki, sveitarfélög, almenningssamtök, flugfélag og verkalýðsfélög.

Keilir hefur útskrifað rétt um þrjú þúsund nemendur síðan stofnun skólans árið 2007. Skólinn er lítill og sérhæfður, með áherslu á nánd við nemendur og persónulega þjónustu. Hjá Keili er mikið lagt upp úr nútímalegum og fjölbreyttum kennsluháttum, bæði í fjarnámi og staðnámi. Einnig að nemendum sé skapað traust og gott námsumhverfi. Keilir starfar samkvæmt þjónustusamningi við Menntamála- og menningarmálaráðuneytið um kennslu á framhaldsskólastigi.