Forréttindi ehf.

Tabú er femínísk hreyfing þar sem við beinum sjónum okkar að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Hún er sprottin af baráttukrafti kvenna, sem hafa ekki einungis upplifað misrétti á grundvelli fötlunar og kyngervis, heldur einnig mögulega kynhneigðar, kynþáttar og aldurs svo eitthvað sé nefnt.

Reynslan og rannsóknir sýna að við sem fatlaðar konur eigum oftar en ekki erfitt uppdráttar í hreyfingum fatlaðs fólks þar sem fatlaðir karlar og ófatlað fólk er við stjórnvölinn og reynsluheimur okkar sem kvenna er ekki viðurkenndur.

Á sama tíma hafa femínískar hreyfingar sögulega haft lítinn áhuga á reynslu og baráttumálum okkar, sem skýrist af þeirri afstöðu að umræða og aðgerðir gegn margþættri mismunun skyggi á kynjajafnréttisbaráttuna. Málin vandast enn frekar ef við erum af öðrum kynþætti en hvítum, erum hinsegin, aldraðar eða undir lögaldri.

Fatlaðar konur eru alls staðar en mega hvergi vera. Þess vegna var Tabú stofnað í mars 2014…vegna þess að við erum til og eigum rétt á plássi, valdi og virðingu í samfélaginu