SORPA bs.

  • Gylfaflöt 5, Reykjavík, Rvk og nágrenni 112, Iceland
  • www.sorpa.is

SORPA starfar í sátt við fólk og umhverfi og hefur alltaf lagt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og stuðlar að sjálfbærum gildum sem víðast í samfélaginu. Fyrirtækið skilgreinir samfélagslega ábyrgð sína út frá fjórum meginþáttum; umhverfi og lífríki, vellíðan starfsmanna, viðskiptavinum og velferð samfélagsins í heild. Sorpa er í eigu sex sveitarfélaga á höfðuborgarsvæðinu og sér um móttöku úrgangs frá þeim. SORPA kemur úrgangi í réttan farveg: til endurnota, endurvinnslu eða urðunar.

SORPU til mikillar ánægju hefur verið mikil vakning í umhverfismálum á Íslandi. Samfélagið okkar einkennist af mikilli neyslu og allri neyslu fylgir úrgangur, sem er ekkert annað en ónotað hráefni. Skilum því hráefni til endurvinnslu eða endurnýtingar og hugum þannig að umhverfi okkar. Það ætti að vera forgangsatriði hjá okkur öllum að koma í veg fyrir myndun úrgangs, draga úr magninu og reyna að endurnýta úrganginn eða koma honum til endurvinnslu. 

Endurnýtum
Góði hirðirinn er nytjamarkaður SORPU og þar öðlast gamlir hlutir nýtt líf. Á öllum endurvinnslustöðvum SORPU eru nytjagámar fyrir Góða hirðinn. Góði hirðirinn hefur undanfarin 19 ár átt farsælt samstarf við íbúa og líknarfélög á höfuðborgarsvæðinu um endurnýtingu nytjamuna sem annars færu í urðun. Markmið Góða hirðisins er að stuðla að endurnýtingu, minnka sóun og láta gott af sér leiða. Allur ágóði rennur því óskertur til hjálparstarfs og líknarmála.
Endurvinnum
SORPA rekur 6 endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þar geta íbúar og smærri fyrirtæki komið með 36 úrgangsflokka til endurnotkunar, endurvinnslu og/eða förgunar. Grenndargámar á höfuðborgarsvæðinu eru um 80 talsins, taka þeir við pappa, pappír og plastumbúðum.
Orkuvinnsla - Metan sem ökutækjaeldsneyti
Það á alltaf vera síðasti kostur að senda úrgang í urðun eða förgun en það sem þarf að urða eða farga fer í Álfsnes. Á urðunarstaðnum í Álfsnesi framleiðir SORPA vistvæna ökutækjaeldsneytið metan úr hauggasi. Árið 2012 jafngilti metanframleiðslan yfir tveimur milljónum bensínlítra og dugði sem eldsneyti á yfir 1000 ökutæki.