Skrímslasetrið

  • Iceland
Sagan
Félag áhugamanna um stofnun skrímslaseturs á Bíldudal var stofnað árið 2007 af sjö áhugamönnum sem leggja vildu Bíldudal lið í viðleitni til að auka framboð á atvinnu og laða að ferðamenn. Setrið skyldi gera þeim þjóðararfi skil sem felst í sögnum af skrímslum víðs vegar um landið, ekki síst úr Arnarfirði.

Félagið festi kaup á gömlu iðnaðarhúsnæði, þar sem Bíldudals grænar baunir voru áður framleiddar. Það var í mjög slæmu ástandi og ljóst að það þyrfti kraftaverk til þess að koma því í stand. Leitað var til brottflutta Arnfirðinga og heimamanna um aðstoð og var Grettistaki lyft. Hátt í eitthundrað sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í verkefninu og skilað yfir 3.000 vinnustundum. Þessi ótrúlega þátttaka og mikli samtakamáttur var meðal annars kveikjan að því að Gísli Einarsson sjónvarpsmaður tók verkefnið fyrir í þætti sínum Út og suður.

Hvers vegna skrímslasetur á Bíldudal?
Flestir félagsmenn ólust upp við frásagnir af fjörulöllum og öðrum kynjaskepnum í Arnarfirði. Þeir töldu að þær gætu verið kjörin afþreying fyrir ferðamenn sem hefðu áhuga á að kynna sér menningu og sögu svæðisins og jafnvel fengið þá til að staldra lengur við.
Við undirbúning var leitað til Þorvaldar Friðrikssonar „skrímslafræðings Íslands“ sem hefur safnað skrímslasögum um tuttugu ára skeið. Í fórum hans má finna hátt í fjögurþúsund frásagnir frá öllum landshlutum. Samkvæmt rannsóknum hans sker Arnarfjörður sig úr hvað varðar fjölda sagna og tegunda og má því segja að staðsetning fyrir skrímslasetur sé hvergi betri en á Bíldudal.