Þjónustu-og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, í daglegu tali kölluð Miðstöðin, starfar skv. lögum nr. 160 frá 2008 og heyrir undir velferðarráðuneytið.
Markmiðið starfseminnar er að auka möguleika þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða daufblindir til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra, með áherslu á stuðning til náms, sjálfstæðs heimilishalds, virkra tómstunda og atvinnuþátttöku. Í því skyni sinnir Miðstöðin ráðgjöf, hæfingu og endurhæfingu, auk þess að afla og miðla þekkingu á aðstæðum notenda í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum.
Miðstöðinni er ætlað að hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru blindir eða sjónskertir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Miðstöðin þjónustar jafnframt daufblinda einstaklinga á sérfræðisviðum sínum í miklu samstarfi við aðra þjónustuaðila. Hún sinnir einnig fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.