Háskóli Íslands

  • Háskóli Íslands, Hringbraut, Reykjavík, Ísland
  • hi.is

Háskóli Íslands er alþjóðlegur rannsóknaháskóli og hefur jafnframt ríkum skyldum að gegna við íslenskt samfélag, menningu og tungu. Í háskólanum eru um 13.000 nemendur í grunn- og framhaldsnámi, þar af eru um 1.000 erlendir nemar. Háskólinn hefur heimild til að brautskrá doktora á öllum fræðasviðum sínum. Skólinn er í nánu samstarfi við marga af helstu rannsóknaháskólum og háskóladeildum heims. Rannsóknavirkni starfsmanna hefur vaxið hratt á undanförnum árum og sýna alþjóðlegir mælikvarðar að áhrif rannsókna þeirra hafa aukist verulega.
Árið 2006 setti Háskóli Íslands sér það langtímamarkmið að komast í hóp hundrað fremstu háskóla í heimi. Önnur Norðurlönd eiga átta skóla í þessum hópi, en þeir eru Háskólinn í Kaupmannahöfn, Háskólinn í Árósum, Háskólinn í Osló, Karolinska Institutet í Stokkhólmi, Háskólinn í Uppsölum, Háskólinn í Lundi, Háskólinn í Stokkhólmi og Háskólinn í Helsinki. Auk þess eru á annan tug norrænna háskóla, sem eru svipaðir að stærð og uppbyggingu og Háskóli Íslands, á meðal fremstu háskóla heims. Árangur Háskóla Íslands á undanförnum árum sýnir að raunhæft er að stefna áfram að þessu langtímamarkmiði.