Fjallabyggð

Sveitarfélagið Fjallabyggð varð til við sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar árið 2006. Í Fjallabyggð búa um 2000 manns. Héðinsfjarðargöng tengja saman þessi tvö byggðarlög, en þau voru vígð 2. október 2010.
Fyrir ferðamenn og útivistarfólk er margt skemmtilegt að skoða og gera í Fjallabyggð. Á veturna er staðurinn skíðaparadís og draumur útivistarmannsins. Hægt er að fara á svigskíði, gönguskíði, skauta, þeytast um á snjósleða eða dorga í Ólafsfjarðarvatni.
Í Fjallabyggð eru tvö skíðasvæði. Skíðasvæðið í Skarðdal á Siglufirði og Skíðasvæðið í Tindaöxl í Ólafsfirði

Á sumrin eru það fjöllin, vatnið og svört sandfjaran sem heilla. Í stórbrotnu landslagi Fjallabyggðar má finna fjölbreyttar gönguleiðir um fjöll og dali og njóta einstaks útsýnis í kyrrð og ró. Afþreyingarmöguleikar eru nánast ótæmandi. Í Fjallabyggð er boðið er upp á sjóstöng og auk þess er hægt að stunda stangveiðar í Ólafsfjarðará, í Ólafsfjarðarvatni, í Héðinsfirði, og í Hólsá á Siglufirði. Svo má ekki gleyma því að hægt er að veiða á bryggjum bæjanna. Miðnætursiglingar og ferðir yfir heimskautsbaug eru einnig í boði. Möguleiki er á að skipuleggja sjóferðir að misjöfnu áhugasviði fólks t.d. að setja saman göngu- og siglingapakka þar sem gengið yrði út í Héðinsfjörð og siglt heim.  Í Fjallabyggð er tveir 9 holu golfvellir, tvær sundlaugar þar af er önnur útisundlaug.

Síldarminjasafnið er staðsett á Siglufirði, en það  er stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins og í Evrópu allri. Í þremur ólíkum húsum er hægt að kynna sér síldveiðar og vinnslu á silfri hafsins. Síldarminjasafnið hlaut Evrópuverðlaun safna, Michletti verðlaunin árið 2004. Á Siglufirði er einnig Þjóðlagasetur og í Ólafsfirði er glæsilegt náttúrgripasafn með fjölda uppstoppaðra fugla.