Matís ohf

  • Vínlandsleið 12, Reykjavík, Rvk og nágrenni 113, Iceland
  • matis.is

Matís er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði.

Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla.

Hjá Matís starfa margir af helstu sérfræðingum landsins í matvælatækni og líftækni; matvælafræðingar, efnafræðingar, líffræðingar, verkfræðingar og sjávarútvegsfræðingar. Einnig starfar fjöldi M.Sc. og Ph.D. nemenda við rannsóknartengt nám hjá Matís.

Mikil áhersla er lögð á gott vinnuumhverfi og starfsánægju starfsmanna Matís. Til að meta stöðu þessara mikilvægu þátta tekur Matís árlega þátt í vinnustaðakönnuninni „Stofnun ársins“ á vegum SFR. Niðurstöður þessarar könnunar komu vel út árið 2012 en Matís hlaut heiðursnafnbótina „Fyrirmyndarstofnun 2012“ sem veitt var fimm efstu stofnununum í þessum stærðarflokki en alls eru hátt í 90 stofnanir í þessum flokki.

Til að greina nánar helstu þætti er snúa að starfsánægju starfsmanna verður einnig unnin vinnustaðakönnun á komandi ári í samstarfi við utanaðkomandi fagaðila. Með þessu móti verður hægt að greina frekar helstu þætti er varða starfsánægju og verða niðurstöður nýttar til að koma á frekari umbótum er tengjast helstu áhrifaþáttum starfsánægju starfsmanna Matís.

Mikill fjöldi sumarstarfsmanna starfar að jafnaði hjá Matís og sumarið 2012 voru alls ráðnir rúmlega 60 sumarstarfsmenn sem unnu annars vegar í höfuðstöðvum Matís í Reykjavík og svo var stór hluti þessara sumarstarfsmanna við störf á starfsstöðvum Matís á landsbyggðinni. Meirihluti sumarstarfsmanna voru ráðnir í samstarfi við atvinnuátak atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Nýsköpunarsjóð námsmanna, AVS rannsóknasjóð og Vinnumálastofnun. Mikil ánægja var í lok sumars með árangur þessarar vinnu þar sem námsmenn fengu ómetanlega reynslu af starfi við rannsóknarverkefni þar sem margvísleg nýsköpun á sviði matvæla og líftækni átti sér stað. Auk þessa starfar fjöldinn allur af erlendum fræði- og rannsóknarmönnum og konum hjá Matís, bæði í tengslum við afmörkuð verkefni og allt árið um kring.

Á hverju ári er farin starfsmannaferð á eina af starfsstöðvum Matís á landsbyggðinni en alls eru starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins níu talsins og þar starfa u.þ.b.20% af starfsfólki Matís. Með þessum ferðum fá allir starfsmenn fyr-irtækisins að kynnast hinum mismunandi vinnustöðvum og hlutaðeigandi samstarfsaðilum.

Þekkingarmiðlun meðal starfsmanna er mikilvægur þáttur í starfsemi Matís. Yfir vetrarmánuðina fara fram reglulegir fyrirlestrar sem skiptast annars vegar í fyrirlestra þar sem starfsmenn Matís kynna sínar rannsóknir og hins vegar eru fengnir utanaðkomandi fræðimenn til að kynna rannsóknir sínar eða starfsemi sem þeir koma að. Þessir fyrirlestrar nýtast bæði í miðlun þekkingar á milli hinna fimm fagsviða Matís ásamt því að kynna nýjar stefnur og strauma í rannsóknum á sviði matvælafræði og líftækni.